Verðmat

ebitda

Yfirleitt leiða fyrirtækjaeigendur ekki hugann að verðmæti rekstrarins nema komin sé upp sú staða að selja fyrirtækið eða einstakar rekstrareiningar að hluta eða öllu leyti. Við þessar aðstæður skiptir verðmæti rekstrarins geysimiklu máli. Í mörgum tilvikum eru menn með í höndunum afrakstur margra ára uppbyggingarstarfs.

Til eru nokkrar aðferðir við framkvæmd verðmats, sú sem er algengust í meðalstórum og stórum fyrirtækjum er „núvirt sjóðsstreymi“. Aðferðin gengur út á að reikna út áætlaðan framtíðarhagnað með tilliti til fjármögnunar, eigin fjár og lánsfjár, og reikna að því búnu út verðmætið miðað við tiltekna ávöxtunarkröfu. Þessi aðferð er talsvert flókin en að margra mati besta nálgunin þegar finna á út verðmæti rekstrar.

„Leiðrétt EBITDA“ er önnur nálgun á gerð verðmats og líklega sú sem oftast er notuð hér á landi sökum þess að fyrirtæki hér, lítil og meðalstór, eru af þeirri stærðargráðu og eðli þeirra þ.m.t. eigendauppbygging með þeim hætti að hentugt þykir að nota þessa aðferð. Þegar fyrirtæki er metið með þessum hætti þarf að skoða sérstaklega:
• Endurnýjunarkostnaður framleiðslutækja
• Einkaneysla eigenda
• Laun og arðgreiðslur eigenda
• Húsnæðiskostnaður, sé fyrirtækið í eigin húsnæði

Þegar EBITDA hefur verið leiðrétt, og tillit tekið til þess hvort EBITDA síðasta árs endurspegli rekstrarárangur undanfarinna ára án mikilla frávika er fundinn stuðull til margföldunar. Stuðullinn er gjarnan á bilinu 3-6 eftir eðli rekstrar og stærð.
Nauðsynlegt er í þessu samhengi að gæta vel að því að fjárhæð veltufjármuna sé eðlileg, en inní þeim geta verið til dæmis ónýtar viðskiptakröfur eða ókúrant lager.
Þriðja aðferðin við verðmat fyrirtækja  sem  er notuð er að finna svokallað „upplausnarverð“  Þessi aðferð er afar sjaldan notuð, en hún gengur út á að leysa fyrirtækið upp, finna markaðsverð véla, tækja, fasteigna og annarra sölulegra eigna. Ekki er þá tekið tillit til viðskiptavildar eða rekstrarins að neinu leyti. Þessi aðferð getur nýst þegar fyrirtæki er með miklar eignir en neikvæðan rekstur.
Áréttað skal að mikilvægt er að fá fagmenn til þess að meta rekstrarvirði í þeim tilvikum að menn huga að sölu. Gamlar aðferðir um margfeldi á veltu tiltekinna mánaða án tillits til afkomu og framlegðar eru úreltar og ekki mælt með notkun þeirra.